Spurt og svarað um Eyrarkláf
Afhverju kláf á Eyrarfjall?
Markmiðið með verkefninu snýst um að skapa einstaka upplifun fyrir erlent sem innlent ferðafólk. Kláfur á Eyrarfjall mun bjóða upp á aðstöðu til skemmtunar og framúrskarandi útsýni yfir Ísafjörð og nágrenni. Útsýnið frá Eyrarfjalli er frábært og með byrjunarstöð í þéttbýli verður til góð tengingu milli miðbæjarins og fjallstoppsins.
Við sem stöndum að verkefninu teljum að kláfur á Eyrarfjall verði lyftisöng fyrir samfélagið, enda höfum við séð og upplifað sambærilega kláfa í fjölmörgum bæjum í Evrópu, t.d. Noregi, Sviss og Ítalíu.
Hvaða áhrif mun kláfur hafa á Ísafjörð?
Við teljum að kláfurinn muni hafa mikil jákvæð áhrif á bæjarfélagið. Með kláf bætist spennandi náttúrutengd afþreying við flóruna á Ísafirði, og þar sem hann verður sá fyrsti (og eini) sinnar tegdunar á landinu verður hann einstök upplifun. Við gerum ráð að kláfurinn nni skapa þónokkur bein störf og skapa verkefni fyrir ýmsa tengda þjónustu. Kláfur á Eyrarfjall er á áfangastaðaáætlun Vestfjarða.
Hvar verða byggingarnar?
Ráðgert er að byrjunarstöðin verði á túni fyrir ofan Hlíðaveg. Þar verða einnig bílastæði og göngustígur að innganginum. Þá er gert ráð fyrir millistaur á Gleiðahjalla og endastöð efst á Eyrarfjalli eins og sjá má á myndinni.
Hvernig mun kláfurinn líta út?
Við leggjum allt kapp á að hanna byggingarnar í samræmi við sögu og nærliggjandi umhverfi. Til þess höfum við fengið til samstarfs arkitektinn, gönguskíðakappann og Ísfirðinginn Einar Ólafsson. Á næstu vikum og mánuðum munum við deila frekari upplýsingum um útlit og framvindu.
Verða neikvæð umhverfisáhrif?
Verkefnið er sem stendur í ítarlegu umhverfismati og Eyrarkláfur ehf. mun leggja sig allan fram við að lágmarka rask á framkvæmdatíma.
Hvenær hefjast framkvæmdir?
Verkefnið er í undirbúningi. Nú er unnið að breytingum á aðal- og deiliskipulagi og umhverfismati. Í kjölfar þess þarf að fullhanna og undirbúa verkefnið. Nákvæmari tímaáætlun mun liggja fyrir haustið 2025.
Hvernig verður með rútuumferð?
Ein ástæða staðsetningarinnar er til að lágmarka þörfina fyrir rútuumferð. Í áætlunum félagsins er gert ráð fyrir að meirihluti gesta komi gangandi eða nýti sér litlar rafdrifnar skutlur. Stærri rútur verði fátíðari en áætlanir gera ráð fyrir 2-3 rútum á dag á háannatíma.
Hvað verður á toppnum?
Eyrarkláfur ehf. hyggst reisa endastöð fyrir kláfinn og aðstöðu til kaffi og veitingasölu á toppi fjallsins. Þá verður útisvæði með góðri aðstöðu til að njóta útsýnisins yfir Ísafjarðarbæ, Djúpið og svæðið um kring.
Ég er með ábendingu, hugmynd um afþreyingu uppi á fjallinu. Hvernig kem ég henni á framfæri?
Þú getur sent okkur spurningu eða ábendingu í gegnum formið á vefnum eða með því að senda beint á eyrarklafur@eyrarklafur.is.